Alvarlegt bifhjólaslys varð í Öræfum nærri Hnappavöllum nú á öðrum tímanum í dag. Tilkynning um slysið barst til neyðarlínu klukkan 13:36.
Hermann Marinó Maggýarson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, segir í samtali við fréttastofu að sjúkrabílar hafi verið sendir á vettvang frá Höfn í Hornafirði og frá Kirkjubæjarklaustri.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slyssins en svo afturkölluð áður en hún fór í loftið.
„Þyrlan var kölluð út vegna alvarlegs umferðarslyss en svo reyndist ekki þörf á þyrlunni og hún var afturkölluð áður en hún fór í loftið,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við fréttastofu.
Umferð hefur verið stýrt fram hjá vettvangi og má búast við töfum á meðan vinna stendur yfir á vettvangi.