Erlent

Fjórir látnir í ó­veðrinu á Spáni

Atli Ísleifsson skrifar
Öldur hafa mælst allt að átta metrar í Valencia og hafa aldrei mælst hærri.
Öldur hafa mælst allt að átta metrar í Valencia og hafa aldrei mælst hærri. AP

Að minnsta kosti fjórir hafa látið lífið í miklu óveðri sem herjað hefur á austurhluta Spánar síðustu sólarhringa. Mikill vindur og öldugangur hefur valdið röskun þegar kemur að samgöngum og opinberri þjónustu.

Flugvellinum í Alicante var lokað um tíma vegna óveðursins sem hafði áhrif á um tvö hundruð flug.

Erlendir fjölmiðlar segja að viðbúnaður sé mikill í um þrjátíu héruðum á Spáni og víða í suðurhluta Frakklands en óveðrið, sem gengur undir nafninu Gloria, mun ná þangað í dag.

Fréttir hafa borist af því að tveir hafi látist úr ofkælingu nærri Valencia, einn maður þegar hann fékk þakplötu í höfuðið í Avila og þá lét einn maður lífið í umferðinni í Asturias þar sem slysið var rakið sérstaklega til óveðursins.

Vindhraðinn hefur mælst 32 metrar á sekúndu víðs vegar í austurhluta Spánar þar sem skólum hefur víða verið lokað. Öldur hafa mælst allt að átta metrar í Valencia og hafa aldrei mælst hærri.

Reiknað er með að óveðrið standi alveg til morguns, en veturinn á Spáni það sem af er hefur verið óvenjulega harkalegur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×