Skoðun

Þjóðar­at­kvæði um auð­linda­á­kvæðið

Bolli Héðinsson skrifar

Ríkisstjórnin kveðst vera komin með orðalag á auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem Sjálfstæðisflokkurinn getur sætt sig við. Það er orðalagið sem sett hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda. Um orðalagið er deilt og þeir fræðimenn á þessu sviði sem árum saman hafa unnið að því tryggja yfirráð þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni telja hugmynd ríkisstjórnarinnar útþynnta, hún tryggi ekki raunveruleg yfirráð þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin hyggst ekki standa fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar en er reiðubúin að lagfæra nokkur atriði hennar þ.á.m. ákvæði um auðlindir í þjóðareigu. Orðalag annarra ákvæða eru minna umdeildar og gætu því náð fram að ganga í sæmilegri sátt. Svo háttar ekki um ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu.

Lýðræðisleg niðurstaða

Allir stjórmálaflokkar, að Sjálfstæðisflokknum undanskildum, hafa lýst vilja til aukinna þjóðaratkvæðagreiðslna til að útkljá deilumál sem kljúfa þjóðina. Því er einsýnt að mikill meirihluti alþingismanna ætti að vera þess albúinn að spyrja þjóðina í allsherjaratkvæðagreiðslu hvort orðalagið hugnist henni betur, orðalagið sem fræðimenn telja til þess fallið að tryggja raunveruleg yfirráð þjóðarinnar á auðlindunum eða orðalagið í samráðsgáttinni.

Þó að slík þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki bindandi þá er ekki ástæða til að ætla annað en allir alþingismenn mundu sjá sóma sinn í því að hlíta niðurstöðu hennar. Málefnið hefur þjóðin þegar rætt í þaula, er vel upplýst um kosti þess og galla og tilbúin að segja sitt álit.

Kosningin fari fram strax

Ríkisstjórnarflokkarnir stefna á breytingarnar í lok núverandi kjörtímabils þannig að þær taki gildi í byrjun hins næsta. Fyrst þetta er eina leiðin sem Sjálfstæðisflokkurinn sættir sig við og þar með Framsóknarflokkur og Vinstri græn, þá ætti allsherjaratkvæðagreiðsla að vera kærkomin til að tryggja að þessar takmörkuðu breytingar eigi sér stað í sátt við þjóðina. Slík atkvæðagreiðsla verður að fara fram hið allra fyrsta á þessu ári þannig að niðurstaða liggi fyrir ef óvænt endalok verða á kjörtímabilinu eða ætlar Alþingi að leyfa Sjálfstæðisflokknum að segja við þjóðina í lok kjörtímabilsins, annaðhvort þiggið þið það sem við réttum ykkur eða þið fáið ekki neitt?

Höfundur er hagfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×