Guðmundur Freyr Magnússon, sem grunaður er um að hafa banað sambýlismanni móður sinnar aðfaranótt sunnudags í Torrevieja á Spáni, hefur verið ákærður fyrir manndráp. RÚV greinir frá og hefur eftir Beatriz Garcia, upplýsingafulltrúa lögreglu í Alicante. Vísir hefur ekki náð tali af Garcia vegna málsins en hefur sent lögreglu fyrirspurn.
Greint var frá því fyrr í dag að dómari á Spáni hefði úrskurðað Guðmund í gæsluvarðhald en ekki fengust upplýsingar um það hversu langt varðhaldið er. Samkvæmt frétt RÚV verður honum haldið þangað til réttarhöld fara fram í málinu.
Lögreglan á Spáni hefur hingað til viljað tjá sig afar lítið um málið vegna rannsóknarhagsmuna og enn fást engar frekari upplýsingar um atburðarásina. Guðmundur Freyr hafði undanfarinn eitt til tvö ár verið með annan fótinn á Spáni en móðir hans og sambýlismaður höfðu búið í Torrevieja um nokkurt skeið.
Rætt var við móður Guðmundar, Kristínu Guðmundsdóttur, í Fréttablaðinu í morgun þar sem hún lýsti því hvernig sonur hennar braust inn í íbúð þeirra aðfaranótt sunnudags með því að kasta 14 kílóa gaskút í gegnum rúðu. Hann hafi verið vopnaður hnífi og stungið sambýlismann hennar ítrekað.
Guðmundur á langan sakaferil að baki hér á landi, eins og fjallað var um á Vísi í gær, og Kristín sagði að þetta væri ekki fyrsta sinn sem sonur hennar hefði veist að sambýlismanni hennar.