Viðskipti innlent

Netverjar hlæja að heildrænu stjórnunar- og regluvörslukerfi Samherja

Jakob Bjarnar skrifar
Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja. Víst er að hann og almannateymi fyrirtækisins eiga verk að vinna til að öðlast tiltrú á ný.
Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja. Víst er að hann og almannateymi fyrirtækisins eiga verk að vinna til að öðlast tiltrú á ný. Vísir/Vilhelm

Samherji hefur sent frá sér tilkynningu til fjölmiðla þar sem segir að fyrirtækið ætli að þróa og inn­leiða heild­rænt stjórn­un­ar- og reglu­vörslu­kerfi sem bygg­ist á áhættu­skipu­lagi fyr­ir­tæk­is­ins, meðal ann­ars með áherslu á spill­ingu, efna­hags­legar refsi­að­gerðir og pen­inga­þvætti. Í tilkynningunni er þetta haft sérstaklega eftir Björgólfi Jóhanns­syni, starf­andi for­stjóra Sam­herja.

Lesendur Kjarnans hlæja í einum kór af tilkynningu Samherjamanna.

Vísir hefur óskað eftir nánari útskýringum á því hvernig þetta er hugsað en í tilkynningunni segir jafnframt að stefnt sé að því að ljúka inn­leið­ingu kerf­is­ins síðar á þessu ári og að ákvörðun um inn­leið­ingu kerf­is­ins hafi verið tekin á „grund­velli reynslu af starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins í Namib­íu. Fyrirspurn Vísis gengur meðal annars út á að spyrja hvað heildrænt stjórnunar- og regluvörslukerfi þýðir?



Tilkynninguna má sjá í heild sinni á heimasíðu Samherja
en nokkrir fjölmiðlar hafa birt efni hennar eins og það kemur af kúnni. Það verður að segjast að netverjar gefa ekki mikið fyrir þetta útspil fyrirtækisins sem staðið hefur í ströngu eftir að greint var frá mútugreiðslum en starfsmenn fyrirtækisins báru fé á ráðamenn á Namibíu til að komast í kvóta á hestamakríl. Reyndar telja netverjar þetta aðhlátursefni. Þannig eru viðbrögðin við Facebook-tilkynningu Kjarnans um þessa frétt öll á eina leið: Hláturkallinn er alls ráðandi.

Þeim sem bregðast við tilkynningu Samherja á vef Fréttablaðsins þykir ekki mikið til koma.

Og svo er einnig um kynningu Fréttablaðsins um frétt sinni af efni tilkynningar Samherjamanna á Facebook. Af þessu má ráða að útvegsfyrirtækið; Björgólfur og almannatengladeild Samherja, eiga enn langt í land með að öðlast tiltrú almennings eftir hremmingar í tengslum við Samherjamálið. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja steig til hliðar eftir að málið kom upp og sagði sig frá stjórnarstörfum ýmissa fyrirtækja, að sögn til að lægja öldur en það virðist ekki hafa dugað hálfa leið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×