Innlent

„Oft ágætt að fólk komi saman og spjalli eftir atvik eins og þetta“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hafnarfjarðarkirkja að sumri.
Hafnarfjarðarkirkja að sumri. Vísir/Vilhelm

Boðað hefur verið til bænastundar í Hafnarfjarðarkirkju í dag vegna slyssins sem varð við Óseyrarbryggju í gærkvöld. Þar hafnaði bíll í höfninni með þremur drengjum innanborðs, tveir þeirra liggja þungt haldnir á gjörgæsludeild. Kirkjan opnar klukkan 16 og hefst bænastundin klukkustund síðar.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði Arnór Blomsterberg, prestur í Ástjarnarkirkju sem er meðal skipuleggjenda bænastundarinnar, að auk presta verði áfallateymi Rauða krossins viðstatt bænastundina á eftir. Það var jafnframt viðstatt sambærilega stund í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í nótt, sem opnuð var klukkan 1:30 fyrir þau sem vildu sækja sér sáluhjálp eftir slysið.

Arnór segir öll velkomin á bænastundina á eftir. „Það er oft ágætt að fólk komi saman og spjalli eftir atvik eins og þetta.“

Þrátt fyrir að um mjög alvarlegt slys hafi verið ræða, eins og það var orðað í tilkynningu í lögreglu gærkvöld, telur Arnór mikilvægt að fólk haldi ró sinni - „Foreldrar haldi utan um unglingana sína og bíði frekar frétta. Það er það sem liggur fyrir núna, að fólk haldi utan um hvort annað og að kærleikur samfélagsins virki,“ segir Arnór.

Áfallaráð Hafnarfjarðarbæjar fundaði fyrir hádegi í dag um næstu skref í viðbrögðum bæjarins við slysinu. Engar frekari aðgerðir hafa verið fyrirhugaðar á þessu stigi en staðan verður endurmetin eftir bænastundina síðdegis.


Tengdar fréttir

Opna Fríkirkjuna vegna slyssins á Óseyrarbryggju í Hafnarfirði

Bíllinn sem hafnaði í Hafnarfjarðarhöfn við Óseyrarbryggju í kvöld var nú skömmu eftir miðnætti hífður upp úr sjónum með kranabíl. Samkvæmt heimildum fréttastofu opnuðu prestar í Hafnarfiði Fríkirkjuna vegna slyssins á Óseyrarbryggju í kvöld. Rauði krossinn á Íslandi var til til aðstoðar til að veita sálrænan stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×