Íslenski boltinn

Rauschenberg lánaður til HK

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin Rauschenberg hefur leikið 61 leik í efstu deild á Íslandi og skorað tvö mörk.
Martin Rauschenberg hefur leikið 61 leik í efstu deild á Íslandi og skorað tvö mörk. vísir/bára

HK hefur fengið danska miðvörðinn Martin Rauschenberg á láni frá Stjörnunni. Hann mun leika með HK út tímabilið.

Rauschenberg, sem er 28 ára, hefur ekkert komið við sögu hjá Stjörnunni í Pepsi Max-deildinni á þessu tímabili en spilað einn leik og skorað eitt mark í Mjólkurbikarnum.

Hann varð Íslandsmeistari með Stjörnunni 2014 og kom svo aftur til félagsins fyrir síðasta tímabil. Rauschenberg lék nítján leiki og skoraði eitt mark í Pepsi Max-deildinni í fyrra.

Þetta er annað árið í röð sem HK fær miðvörð á láni frá Stjörnunni. Í fyrra lék Björn Berg Bryde á láni hjá HK og var einn besti leikmaður liðsins.

HK er í 10. sæti Pepsi Max-deildarinnar með átta stig og hefur fengið á sig 22 mörk í níu leikjum. Næsti leikur HK-inga er gegn nýliðum Fjölnismanna á sunnudaginn.

Auk þess að leika hér á landi hefur Rauschenberg leikið með Esbjerg í Danmörku og Gefle og Brommapojkarna í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×