Erlent

Gert að yfir­gefa heimili sín vegna elda norður af Los Angeles

Atli Ísleifsson skrifar
Slökkviliðsmaður berst við eldana norður af Hughes-vatni, norður af Los Angeles.
Slökkviliðsmaður berst við eldana norður af Hughes-vatni, norður af Los Angeles. AP

Yfirvöld í Kaliforníu hafa fyrirskipað íbúum á um fimm hundruð heimilum að yfirgefa heimili sín vegna gróðurelda norður af Los Angeles. Eldarnir hafa breiðst hratt út.

Á miðvikudagskvöldið að staðartíma höfðu eldarnir dreifst yfir um fjögur þúsund hektara svæði. Eldarnir blossuðu upp nærri stöðuvatninu Lake Hughes í um 90 mínútna akstursfjarlægð norður af stórborginni Los Angeles.

„Á innan við tveimur mínútum höfðu eldarnir dreifst út um nærri hundrað ekru [um 40 hektara] svæði,“ sagði talsmaður slökkviliðs á blaðamannafundi.

Enn sem komið er hafa ekki borist fréttir af manntjóni eða eignatjóni.

Um þrjú hundruð slökkviliðsmenn berjast nú við eldana, þar sem notast er við þyrlur og flugvélar sem sérbúnar eru til slökkvistarfs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×