Innlent

Samherjaþátturinn birtur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þátturinn ber heitið Skýrslan sem aldrei var gerð.
Þátturinn ber heitið Skýrslan sem aldrei var gerð. skjáskot

Fyrsti vefþáttur Samherja hefur verið birtur. Þátturinn ber heitið „Skýrslan sem aldrei var gerð“ og er það vísað til skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs frá árinu 2010. Skýrslan var þungamiðjan í umfjöllun Ríkisútvarpsins um meint brot Samherja, félagið hafi selt dótturfélagi sínu afla á undirverði. Það hafi svo orðið kveikjan að umfangsmikilli húsleit í höfuðstöðvum félagsins árið 2012.

Samherji segir Verðlagsstofuna hins vegar hafa staðfest með skriflegu svari í apríl á þessu ári að umrædd skýrsla hafi aldrei verið gerð. Það sé því niðurstaða útgerðarfélagsins að Helgi Seljan, fréttamaður Ríkisútvarpsins, hafi falsað umrædd gögn.

Því til staðfestingar birtir Samherji í þætti sínum hljóðbrot af fundi Jóns Óttars Ólafssonar, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns, og Helga þar sem heyra má fréttamanninn segjast hafa átt í erfiðleikum með að sannreyna umrædda skýrslu. Helgi segist þó hafa staðið í þeirri trú að skýrslan væri „legit“ - hún væri góð og gild.

Heill þáttur af „röngum upplýsingum“

„Tölurnar sem Helgi Seljan þurfti að „tékka af“ eru rangar enda tók hann heldur ekki tillit til ólíkra söluskilmála, stærðar gullkarfans eða sölutíma. Helgi Seljan byggði því heilan þátt á röngum upplýsingum,“ segir í myndbandi Samherja.

Í þættinum er meðal annars rætt við fyrrnefndan Jón Óttar og Jóhannes Pálsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri framleiðslu og markaðsmála Síldarvinnslunnar sem Samherji á að stórum hluta, sem segist hafa varað Helga Seljan við því að fullyrðingar hans um afurðasöluna væru að líkindum ekki á rökum reistar.

Að sama skapi segir Garðar Gíslason lögmaður Samherja í þættinum að húsleit Seðlabankans, sem sagt er að ráðist hafi verið í út af þessari afurðasölu, hafi verið „illa undirbúin“ og hálfgerð „veiðiferð stjórnvalds.“ Það hafi á endanum verið mat sérstaks saksóknara sem hafði þessi mál til skoðunar að Samherji hafi staðið skil á gjaldeyristekjum „af kostgæfni.“

Von er á viðbrögðum frá Ríkisútvarpinu síðar í dag vegna þeirra ásakana sem bornar eru á miðilinn í þættinum.

Vefþátt Samherja má sjá hér að neðan. Útgerðarfélagið hefur boðað útgáfu fleiri þátta þegar fram líða stundir.


Tengdar fréttir

Samherji framleiðir eigin þætti

Samherji boðar útgáfu vefþátta, hvers ætlunarverk er að miðla sýn útgerðafélagsins á Samherjamálið svokallaða og umfjöllun Kveiks um starfsemi Samherja í Namibíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×