Erlent

Grímur sagðar virka vel en buff fjölga dropum í loftinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Grímur sem heilbrigðisstarfsfólk notar helst virkuðu vel í rannsókninni.
Grímur sem heilbrigðisstarfsfólk notar helst virkuðu vel í rannsókninni. Þorkell Þorkelsson/Landspítali

Buff og klútar gera lítið til að draga úr því að fólk sem smitast hefur af Covid-19 smiti út frá sér. Vísindamenn við Duke háskólann í Bandaríkjunum luku nýverið við rannsókn þar sem skilvirkni fjórtán tegunda gríma gegn Covid-19 var könnuð og var þetta meðal niðurstaða rannsóknarinnar.

Aðrar grímur draga nánast alfarið úr dreifingu agna sem gætu borið veiruna.

Covid-19 smitast aðallega með dropa- og snertismiti. Dropar sem koma þegar fólk hnerrar, hóstar eða talar geta hangið í loftinu og smitað þannig. Sérstaklega í lokuðum rýmum.

Vísindamennirnir skoðuðu fjórtán mismunandi grímur. Grímurnar voru settar á manneskju sem prófaði að tala með grímurnar og án grímu. Ljósgeislar og myndavélar voru svo notaðar til að skoða dropana sem bárust frá viðkomandi.

Ekki var skoðað hvort að grímur stöðvi þessa dropa á leiðinni inn.

Í ljós kom að fleiri dropar bárust frá fólki með buff en frá fólki sem var ekki með neitt fyrir vitum sínum. Buffin sjálf stöðva ekki dropana heldur brutu þá upp svo fleiri en smærri dropar bárust út í loftið. Þar að auki hanga smærri dropar lengur í loftinu en stærri.

Hálsklútar voru það næstversta sem skoðað var. Rannsóknin sýndi þó fram á að heimagerðar grímur úr bómull virkuðu mjög vel.

Best virkaði þó N95 gríma, sem heilbrigðisstarfsfólk á víglínunum, ef svo má að orði komast, nota gjarnan. Aðrar grímur sem heilbrigðisstarfsfólk notar einnig mikið reyndust sömuleiðis vel.

Haft er eftir einum af þeim sem komu að rannsókninni á vef Sky að grímur séu einföld og ódýr leið til að sporna gegn dreifingu Covid-19. Um helmingur þeirra sem smitast séu án einkenna og viti oft ekki að þau séu smituð. Þannig geti þó ómeðvitað dreift veirunni með því að hnerra eða jafnvel tala.

„Ef allir væru með grímur, myndum við stöðva um 99 prósent af þessum dropum, áður en þeir ná til annarra,“ sagði Eric Westman.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×