Breski sjónvarpsmaðurinn og framleiðandinn Simon Cowell er hryggbrotinn eftir að hafa dottið af nýju rafhjóli sínu sem hann var að prófa á lóð sinni í Malibu í Kaliforníu í gær.
Hinn sextugi Cowell var fluttur á sjúkrahús og gekkst undir aðgerð í gærkvöldi.
Sky News greinir frá þessu, en haft er eftir talsmanni Cowell að hann sé í góðum höndum lækna og líði eftir atvikum vel.
Simon Cowell tók í síðasta mánuði yfir fulla stjórn framleiðslufélagsins Syco Entertainment, sem framleiðir meðal annars sjónvarpsþættina America‘s Got Talent og X Factor.
Hann hefur áður starfað sem dómari í fleiri þáttum – þar á meðal American Idol.