Handbolti

Óli Stef hellti lýsi á hraunmola fyrir leik á Ólympíuleikunum í Peking

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lýsi, hraun og Óli Stef.
Lýsi, hraun og Óli Stef.

Ólafur Stefánsson var í miklum ham á Ólympíuleikunum í Peking 2008, jafnt innan vallar sem utan.

Björgvin Páll Gústavsson ræddi um Ólympíuleikana og þátt Ólafs í því að íslenska landsliðið vann til silfurverðlauna í Podcasti Sölva Tryggvasonar á dögunum.

„Það er svo mikill vilji í honum og hann er með svo stórt hjarta. Hann er svo mikill Íslendingur og var fyrirliði landsliðsins í langan tíma,“ sagði Björgvin sem sló í gegn á Ólympíuleikunum sem voru hans fyrsta stórmót með landsliðinu.

Markvörðurinn lýsti svo sérstakri hvatningaraðferð Ólafs fyrir leik á Ólympíuleikunum.

„Hann tók með sér hraunmola frá Íslandi og fyrir einn leikinn tekur hann okkur í hring, þar sem hann tekur hraunmolann og segir við okkur að þarna séu ræturnar,“ sagði Björgvin.

„Svo tekur hann lýsi og hellir yfir hraunmolann og það átti að vera svo íslenskt. Svo voru allt í einu fullt af mönnum komnir með lýsi á puttana og lýsi út um allt á gólfið.“

Ólafur lék frábærlega á Ólympíuleikunum 2008 og var valinn í úrvalslið mótsins. Hann lék alls á þrennum Ólympíuleikum: 2004 í Aþenu, 2008 í Peking og 2012 í London.

Ólafur hefur að undanförnu haslað sér völl sem söngvari og gjörningalistamaður. Þá berst hann fyrir breytingum á íslenska skólakerfinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×