Handbolti

LeBron tók mynd af Björgvini og Kobe á Ólympíuleikunum í Peking

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björgvin Páll sló í gegn á Ólympíuleikunum í Peking 2008.
Björgvin Páll sló í gegn á Ólympíuleikunum í Peking 2008. getty/Cameron Spencer

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska handboltalandsliðsins og Hauka, rifjaði upp kynni sín af körfuboltastjörnunum LeBron James og Kobe Bryant heitnum á Ólympíuleikunum í Peking 2008 í Podcasti Sölva Tryggvasonar.

Björgvin og félagar í íslenska landsliðinu unnu Ólympíusilfur í Peking og framganga strákanna okkar vakti athygli annarra íþróttamanna, m.a. stjarnanna í bandaríska körfuboltalandsliðinu.

„Á Ólympíuleikunum 2008 var ég bara ungur og ferskur og einhvern veginn ómeðvitaður um allt. Í Ólympíuþorpinu voru allir að taka myndir af öllum en þú vilt ekki stoppa alla; sumir gera þetta ekki og sumir taka ekki myndir. Ég var bara að njóta augnabliksins og var ekkert feiminn við að gera það sem ég vildi,“ sagði Björgvin við Sölva.

Bandaríska körfuboltalandsliðið tók hús á íslenska handboltalandsliðinu í Ólympíuþorpinu. Skömmu síðar rakst Björgvin aftur á þá Kobe og LeBron í matartjaldinu.

„Þá sitja Kobe Bryant og LeBron á borði og LeBron kallar í mig og þeir voru að spyrja meira út í Ísland og handbolta. Þeir sögðust ætla að mæta á leik en gerðu það ekki,“ sagði Björgvin sem langaði í myndir af sér með stórstjörnunum.

„Það var ekkert mál. Stelpa sem sat með okkur á borði tók myndina. Svo langaði mig líka í mynd með Kobe sem sat á móti okkur. Ég fór yfir en stelpan náði ekki nógu góðri mynd þannig að LeBron tók símann af henni og sagði: „This will be my fyrst and only picture in the Olympics“ og tók mynd af mér og Kobe. Ég er enn að bíða eftir því að einhver sendi mér mynd af því þegar LeBron er að taka mynd af mér og Kobe.“

LeBron er handstór og Björgvin hafði áhyggjur af símanum sínum í hrömmunum á honum.

„Hann er með svo stóra putta að ég hafði áhyggjur af því að hann myndi kremja símann minn,“ sagði Björgvin.

Líkt og fyrir Björgvin voru Ólympíuleikarnir í Peking góðir fyrir LeBron og Kobe en Bandaríkjamenn unnu Ólympíugull eftir átta ára bið. Þeir urðu aftur Ólympíumeistarar með bandaríska liðinu í London 2012.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×