Færeyingarnir sem Fram sótti í vor eru loks mættir til landsins. Þeir Rógvi Dal Christiansen og Vilhelm Poulsen eiga að hjálpa Fram að komast aftur í úrslitakeppnina.
Rógvi Dal er 26 ára gamall og spilar stöðu línumanns. Hann kemur frá Kyndli í Þórshöfn. Vilhelm er tvítugur að aldri og leikur sem hægri skytta eða hornamaður. Hann lék með H71 Hoyvik.
Þeir félagar eru báðir A-landsliðsmenn.
Sebastian Alexandersson er tekinn við stjórnartaumunum í Safamýrinni og hefur gefið út að hann stefni á að koma liðinu í úrslitakeppnina. Ásamt Færeyingunum tveimur þá fékk hann Breka Dagsson til liðsins.
Fram endaði í 9. sæti Olís-deildarinnar á síðasta tímabili. Fram mætir KA á Akureyri í fyrstu umferð Olís-deildarinnar. Svo lengi sem deildinni verði ekki frestað.
Eins og staðan er núna verða fimm Færeyingar í Olís-deildinni á næsta tímabili. Auk Rógva og Vilhelms eru það Allan Norðberg, Áki Egilnes og Nicholas Satchwell hjá KA.