Íslenski boltinn

Gunn­hildur rætt við nokkur fé­lög

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er þaulreynd landsliðskona.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er þaulreynd landsliðskona. vísir/skjáskot

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir vill komast til Evrópu á láni til þess að spila fótbolta en hefur ekki ákveðið sig hvort að það verður að spila hér á Íslandi eða annars staðar í Evrópu.

Gunnhildur Yrsa er samningsbundin Utah Royals í Bandaríkjunum en tímabilinu þar er lokið eftir að Utah datt út eftir vítaspyrnukeppni.

Gunnhildur Yrsa hefur undanfarið verið orðuð við bæði uppeldisfélag sitt, Stjörnuna, sem og Val en hún segir að hún ætli sér að komast til Evrópu til þess að vera í sem bestu formi fyrir landsleikina í haust.

„Ég er komin heim tímabundið. Það eru landsleikir í september, október og nóvember og fyrir mér er það númer eitt. Ég mun gera hvað sem er, sem er best fyrir landsliðið í augnablikinu,“ sagði Gunnhildur Yrsa.

„Ég veit að ég þarf að spila í Evrópu ef ég ætla að spila með landsliðinu í haust. Það er mikilvægt að ég haldi mér í leikformi. Ég þarf að ná leikjum og það er ekkert víst að það verði leikir úti.“

„Bandaríkin eru búin að loka og það er engin að hleypa bandarískum flugum inn þá er mjög erfitt fyrir mig að vera úti og koma heim í landsleiki. Þá þyrfti ég að vera í sóttkví, spila leiki og fara aftur til baka í sóttkví.“

„Akkúrat núna er það mjög óhentugt fyrir mig. Ef ég fer eitthvað þá er það á láni og svo fer ég aftur til Bandaríkjanna.“

Gunnhildur ásamt skoskum liðsfélaga hafa fengið undanþágu hjá Utah til þess að finna sér nýtt lið og fara á láni vegna þess að bæði Ísland og Skotland eiga mikilvæga leiki í undankeppninni í haust.

„Ég er með smá undanþágu því ég er í landsliðinu og við eigum undankeppnina í haust. Við erum tvær; ég og ein frá Skotlandi sem eru í þessum aðstæðum.“

„Þau eru að gera undanþágu út af því. Þau gera sér grein fyrir að það verður ekkert auðvelt að ferðast á milli landa og komast í þessa leiki.“

„Öll hin landsliðin eru bara með æfingaleiki ef þau verða með leiki svo það er aðeins öðruvísi fyrir mig. Það tók smá tíma en þau eru skilningsrík og skilja mig í þessu. Þau vita að landsliðið er númer eitt.“

Hún segist vera búin að ræða við nokkur félög en segir að ákvörðunin hvar hún muni spila í haust ekki enn liggja fyrir.

„Ég er búin að tala við nokkur félög. Ég vissi að ég þyrfti smá tíma. Það hefur verið mikið álag að vera þarna úti en ég fór hringinn í kringum Ísland og hef tekið smá tíma í að hugsa þetta. Ég hef enn ekki ákveðið mig svo þetta kemur í ljós,“ sagði Gunnhildur.

Klippa: Sportpakkinn - Gunnhildur Yrsa

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×