Íslenski boltinn

Valsmenn fundu framherja í Danmörku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kasper Høgh í Valstreyjunni.
Kasper Høgh í Valstreyjunni. mynd/valur

Valur, topplið Pepsi Max-deildar karla, hefur fengið danska framherjann Kasper Høgh á láni frá Randers. Lánssamningurinn gildir út tímabilið.

Valsmenn hafa verið í leit að framherja sem gæti létt undir með Patrick Pedersen. Þeir sóttu enn á ný á dönsk mið en Høgh verður fjórði Daninn í leikmannahópi Vals. Fyrir eru þar Pedersen, Rasmus Christiansen og Lasse Petry.

Høgh, sem er nítján ára, hefur spilað tíu leiki með Randers í dönsku úrvalsdeildinni. Þá hefur hann farið mikinn með U-19 ára liði Randers og skorað 48 mörk í 47 leikjum með því. Høgh hefur leikið tíu leiki og skorað þrjú mörk fyrir yngri landslið Danmerkur.

Pedersen missti af leik Vals og Fjölnis á mánudaginn vegna meiðsla. Hann ætti hins vegar að vera klár fyrir leikinn gegn ÍA í sextán liða úrslitum Mjólkurbikarsins á föstudaginn. Pedersen hefur skorað sex mörk í Pepsi Max-deildinni og er markahæsti leikmaður Vals í sumar.

Valur er með tveggja stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildarinnar. Valsmenn hafa unnið þrjá leiki í röð.

Høgh gæti þreytt frumraun sína með Val þegar liðið sækir FH heim 5. ágúst, miðvikudaginn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×