Íslenski boltinn

„Menn festast í að tala um 2013 en það er 2020 núna“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björn Daníel Sverrisson var gerður að fyrirliða FH fyrir tímabilið.
Björn Daníel Sverrisson var gerður að fyrirliða FH fyrir tímabilið. vísir/hag

FH-ingurinn Björn Daníel Sverrisson var til umræðu í Pepsi Max stúkunni í gær eins og svo oft áður. 

Björn Daníel hefur ekki náð sér á strik í sumar, ekki frekar en á síðasta tímabili, og Guðmundur Benediktsson, Reynir Leósson og Davíð Þór Viðarsson veltu því fyrir sér hvort staða hans í byrjunarliði FH væri í hættu eftir komu Eggerts Gunnþórs Jónssonar.

„Hann er að fara að koma inn í liðið, klárlega. Annað hvort á miðsvæðið eða í hafsentinn sem myndi þýða að Gummi [Guðmundur Kristjánsson] færi líklega á miðjuna. Ég held að það sé alltaf að fara að koma nýr leikmaður á miðjuna hjá FH. Ef þú horfir á frammistöðuna hingað til væri Björn Daníel líklegastur til að detta út. Ekki nema þetta gefi honum innspýtingu, sem þetta á að gera,“ sagði Reynir.

Björn Daníel hefur spilað aftarlega á miðjunni síðan hann kom aftur til FH fyrir síðasta tímabil. Áður en hann fór út í atvinnumennsku lék hann framar á vellinum eins og Davíð Þór rifjaði upp. Tímabilið 2013, sem var það síðasta áður en Björn Daníel fór út, var hann valinn besti leikmaður efstu deildar.

„Menn festast samt í því, og ég geri það líka, að tala um 2013 tímabilið en það er 2020 núna og leikmenn breytast,“ sagði Reynir.

Enginn velkist í vafa um hæfileika Björns Daníels og Davíð Þór vill sjá manninn sem tók við fyrirliðabandinu hjá FH af sér gera sig meira gildandi inni á vellinum.

„Það sem maður vill sjá enn meira frá honum, því maður veit að hann hefur það svo mikið í sér, er að hann taki leikina yfir. Þá er spurning hvort það er betra fyrir hann, þegar Eggert kemur inn, að fara aðeins framar,“ sagði Davíð Þór.

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Umræða um Björn Daníel

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×