KR-ingar voru áberandi í uppgjöri Pepsi Max-stúkunnar í gærkvöld eftir 6. umferðina í Pepsi Max-deild karla.
Hinn 19 ára gamli Stefán Árni Geirsson átti Origo-mark umferðarinnar, sem hann skoraði í 3-1 sigrinum á Breiðabliki, en það var jafnframt hans fyrsta mark í efstu deild.
Stefán Árni var einn þriggja KR-inga sem komust í úrvalslið 6. umferðar. ÍA átti einnig þrjá menn í úrvalsliðinu eftir að hafa skellt Gróttu á útivelli, 4-0.
Félagi Stefáns Árna í KR, Pablo Punyed, var valinn besti leikmaður umferðarinnar en hann skoraði tvö marka liðsins í sigrinum góða á Breiðabliki.
Aron Snær Friðriksson var svo heiðraður fyrir bestu varnarvinnuna í umferðinni en markvarsla hans gegn FH, í lok leiks, tryggði Fylki sætan sigur.