Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði tvö mörk í 3-3 jafntefli Kristianstads gegn Vittsjö í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.
Kristianstad lenti þrívegis undir í leiknum en náði alltaf að koma til baka. 1-0 undir jafnaði Svava metin á 18. mínútu og í stöðunni 2-1 fyrir Vittsjö skoraði Svava sitt annað mark, á 38. mínútu og jafnaði metin í 2-2.
Vittsjö komst síðan í 3-2 undir lok fyrri hálfleiks og var staðan þannig í hálfleik. Á 58. mínútu fékk Clara Markstedt leikmaður Vittsjö rauða spjaldið, Vittsjö spilaði því manni færri það sem eftir lifði leiks.
Therese Sessy Asland jafnaði metin á 87. mínútu fyrir Kristianstad og á 96. mínútu fiskaði Svava Rós vítaspyrnu. Hún fór hinsvegar ekki sjálf á punktinn heldur Therese Ivarsson, sem því miður klúðraði spyrnunni og niðurstaðan í leiknum 3-3 jafntefli.
Þetta var fyrsta stig Kristianstad í sumar og er liðið í næstneðsta sæti deildarinnar, en aðeins þrjár umferðir eru búnar. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad.