Reynir Leósson, sparkspekingur, segir að frammistaða ÍA í 4-1 sigrinum á Val á föstudagskvöldið sé besti leikur sem hann hefur séð Skagamenn spila í rúman áratug.
Skagamenn léku á alls oddi gegn Íslandsmeistaraefnunum í Val á föstudagskvöldið en sóknarleikur liðsins var afar skemmtilegur.
Valsmenn réðu lítið sem ekkert við fremstu menn Skagans og útkoman varð bráðfjörugur leikur en Skagamenn fóru burt með stigin þrjú.
„Þeir hafa aðeins verið að þróa leikstíl sinn sem hafa leitt til þess að þetta hafa verið opnir leikir og þeir hafa gefið full mikil færi á sér en þetta hafa verið frábærlega skemmtilegir leikir,“ sagði Reynir.
„Ég er búinn að horfa á all marga Skagaleiki í gegnum tíðina og ég held að þetta sé besti leikurinn þeirra í tíu, tólf, þrettán ár. Ég hef ekki séð svona góða frammistöðu, sérstaklega sóknarlega, hjá Akranes-liði í rosalega langan tíma og mér fannst hlutirnir algjörlega smella í þennan leik.“