Fótbolti

Samstarf Þórs og Coolbet ekki nýtt af nálinni

Sindri Sverrisson skrifar
Þjálfari og leikmenn Þórs mættu í viðtöl með derhúfur merktar Coolbet og fyrirtækið auglýsti á árskortum á heimaleiki liðsins.
Þjálfari og leikmenn Þórs mættu í viðtöl með derhúfur merktar Coolbet og fyrirtækið auglýsti á árskortum á heimaleiki liðsins. Samsett mynd/fótbolti.net/vísir

Samstarf Þórs og Coolbet hófst ekki með því að leikmenn og þjálfari karlaliðs félagsins í fótbolta klæddust derhúfu með merki veðmálafyrirtækisins í myndbandsviðtölum á föstudaginn. Yfirlýsing knattspyrnudeildar félagsins frá því í gær heldur ekki vatni.

Fyrir keppnistímabilið í ár seldu Þórsarar líkt og önnur félög árskort á heimaleiki til sinna stuðningsmanna. Árskort Þórs voru vandlega merkt Coolbet, fyrirtækinu sem Þórsarar segjast í yfirlýsingu engan samning hafa gert við né þegið neinar greiðslur frá. Mynd af árskortinu má sjá hér að ofan.

Yfirlýsing knattspyrnudeildar Þórs:

Stjórn knattspyrnudeildar Þórs harmar það atvik sem átti sér stað að loknum leik Þórs og Grindavíkur í 1. umferð Lengjudeildarinnar sl. föstudag 19. júní, þegar leikmenn og þjálfarar liðsins komu í viðtal eftir leik með húfu með vörumerki fyritækisins Coolbet. 

Félagið harmar þetta atvik og tekur fulla ábyrgð í málinu.

Engin samningur hefur verið gerður við umrætt fyrirtæki né mun vera gerður og Þór hefur ekki og mun ekki þiggja neinar greiðslur frá þeim.

Við viljum biðjast velvirðingar á þessum mistökum okkar og munum leggja okkur fram við að vanda vinnubrögð okkar í framtíðinni

Ef taka ætti yfirlýsingu Þórs trúanlega myndi sú spurning vakna hvers vegna knattspyrnudeild félagsins sé svo áfjáð í að auglýsa erlent veðmálafyrirtæki sem raun ber vitni. Hvorki þeirri spurningu né öðrum varðandi málið virðist hins vegar nokkur af forkólfum Þórs vilja svara. Formaður knattspyrnudeildar, Óðinn Svan Óðinsson, svaraði símtali á mánudagsmorgun og sagði Þórsara þá vilja funda um málið áður en þeir tjáðu sig. Ekki hefur náðst í hann síðan þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Íþróttafulltrúi Þórs, Jón Stefán Jónsson, vísaði í dag á Reimar Helgason framkvæmdastjóra félagsins sem sagði við Vísi að um mál knattspyrnudeildar væri að ræða og vildi ekki tjá sig.

Framkvæmdastjóri KSÍ vísaði, án þess að vita af auglýsingunum á árskortum Þórs, derhúfumálinu svokallaða til aga- og úrskurðarnefndar á þeim forsendum að það gæti hafa skaðað ímynd knattspyrnunnar. Nefndinni er heimilt að sekta félög um 50-100 þúsund krónur og úrskurða menn í leikbönn.

Ólöglegt er að auglýsa veðmálafyrirtæki á Íslandi nema þau sem njóta sérstakra undanþága. Slíkt lögbrot varðar sektum eða fangelsi í allt að sex mánuði.


Tengdar fréttir

ÍTF fordæmir hegðun Þórsara - Málið til skoðunar hjá KSÍ

„Mér finnst þetta fyrst og fremst óheppilegt að öllu leyti, því þarna er bara verið að brjóta landslög,“ segir Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensks toppfótbolta, um það að Þórsarar skyldu auglýsa erlenda veðmálasíðu eftir fyrsta leik sinn í Lengjudeildinni í sumar.

Þórsarar auglýstu erlenda veðmálasíðu

Þjálfari og leikmenn Þórs á Akureyri auglýstu erlenda veðmálasíðu í viðtölum eftir að þeir unnu 2-1 sigur á Grindavík í fyrsta leik í 1. deildinni í fótbolta, sem í sumar heitir Lengjudeildin vegna samnings við Íslenskar getraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×