Maðurinn sem leitað var að á Vestfjörðum fannst nú rétt fyrir klukkan sex í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar fann manninn, einan á ferð og símalausan, þar sem hann hafði lent í sjálfheldu við Kroppstaðahorn í Skálavík.
Hann hafði hrasað og var með minniháttar áverka á höfði. Maðurinn var fluttur til Ísafjarðar með þyrlunni þar sem hann var færður undir læknishendur.
Hitamyndavél þyrlunnar skipti sköpum við að finna manninn sem féll inn í umhverfið, líkt og sjá má af myndum frá Landhelgisgæslunni. Erfitt var að sjá manninn með berum augum en hann sást vel með hitamyndavélinni.

Tugir björgunarsveitamanna af norðanverðum Vestfjörðum höfðu leitað mannsins síðan seint í gærkvöldi á svæði í grennd við bifreið sem hann skildi eftir í Skálavík. Maðurinn lagði af stað í göngu í gær en fjölskylda hans gerði lögreglu viðvart þegar þeir fóru að óttast um hann síðdegis.
Í tilkynningu lögreglu segir að snemma í morgun hafi staðið til að gera hlé á leitinni og halda henni áfram klukkan tíu en ekkert varð úr því þar sem maðurinn fannst.
