Rúmensku mennirnir tveir sem fundust á hótelum á höfuðborgarsvæðinu eftir að lögregla lýsti eftir þeim reyndust ekki vera smitaðir af kórónuveirunni samkvæmt niðurstöðu úr sýnatöku. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, verkefnastjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Mennirnir eru enn í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og til skoðunar er hvort þeir hafi brotið reglur um sóttkví, eða verið í sóttkví frá heimkomu.
Þeir komu til landsins á þriðjudag frá Lundúnum í sex manna hópi. Eftir að þrír þeirra voru handteknir vegna þjófnaðar úr verslunum á Selfossi kom í ljós að tveir reyndust smitaðir af kórónuveirunni. Þar sem mennirnir ferðuðust saman til landsins voru þeir allir útsettir fyrir smiti.
Lýst var eftir þremur mönnum úr hópnum í gær og enn hefur ekkert spurst til eins þeirra. Hann heitir Pioaru Alexandru Ionut og hefur lögregla lagt mikla áherslu á leitina í dag enda er uppi grunur um að hann sé smitaður af veirunni.
