Fótbolti

Forsetinn hótar að sniðganga fótbolta algjörlega

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Donald Trump og Gianni Infantino, forseti alþjóða knattspyrnusambandsins.
Donald Trump og Gianni Infantino, forseti alþjóða knattspyrnusambandsins. EPA-EFE/SHAWN THEW

Forseti Bandaríkjanna er duglegur að tjá sig um íþróttir og nú hefur Donald J. Trump gefið út að hann muni sniðganga NFL-deildina sem og hefðbundinn fótbolta vegna þeirra mótmæla sem hafa átt sér stað í Bandaríkjunum undanfarið.

Mótmæli og óeirðir hafa átt sér stað í Bandaríkjunum vegna morðsins á George Floyd. Þá hafa flest íþróttalið og mörg af stærstu íþróttanöfnum Bandaríkjanna gefið út að þau standi á bakvið „svört líf skipta máli“ hreyfingunni.

Bandaríska knattspyrnusambandið hefur sagt að leikmenn sem „taka hné“ á meðan þjóðsöngurinn fer fram verði ekki refsað fyrir athæfið. Hefur sambandið viðurkennt að stefna þess efnis – sem var við lýði – sé röng.

Matt Gaetz, þingmaður Repúblikana flokksins tjáði sig um þá ákvörðun og ákvað Trump að endurtísta því sem Gaetz sagði á Twitter. Þá bætti hann við „ég mun ekki horfa á mikið á næstunni.“

Hann bætti svo við „það virðist sem NFL sé að fara í sömu átt svo ég mun heldur ekki horfa,“ en það má nú reikna með því að starf forsetans sé það tímafrekt að hann hafi lítinn tíma fyrir íþróttagláp hvort eð er.

Sky Sports greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×