Pétur Hrafn Friðriksson skoraði tvö mörk og Garðar Ingi Leifsson eitt þegar ÍH vann GG í lokaleik kvöldsins í 2. umferð Mjólkurbikarsins í fótbolta.
Liðin áttust við inni í Skessunni í Hafnarfirði, þar sem öll mörkin voru skoruð á rúmlega korters kafla snemma í seinni hálfleik.
ÍH verður því í skálinni þegar dregið verður í 32-liða úrslit en fyrr í kvöld komust Kórdrengir, Selfoss, Leiknir R., Keflavík, ÍR, Þór og SR áfram. Í 32-liða úrslitunum mæta úrvalsdeildarliðin tólf til leiks.
Áfram verður leikið í bikarnum á morgun og umferðin klárast svo á sunnudag.