Yfirlýsing Líkúd, flokks Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, um að blaðamaður sem fjallað hefur um spillingarmálið gegn forsætisráðherranum ætti með réttu að vera í fangelsi hefur verið gagnrýnd af Benny Gantz, varnarmálaráðherra og leiðtogi Bláhvíta bandalagsins, og öðrum meðlimum nýrrar ríkisstjórnar Netanyahu.
Gantz og aðrir ráðherrar hafa sagt yfirlýsinguna ekki í samræmi við að Ísrael væri lýðræðisríki og að það væri starf blaðamanna að veita ráðandi öflum aðhald, samkvæmt frétt Times of Israel.
Channel 13 sýndi í gær þátt þar sem blaðamaðurinn Raviv Drucker fór yfir eitt af spillingarmálunum sem beinast gegn Netanyahu. Þetta tiltekna mál, sem er nú fyrir dómstólum, kallast „mál 4000“.
Það er alvarlegasta málið sem beinist gegn Netanyahu og er hann sakaður um mútur, svik og að brjóta traust almennings með því að hafa komið reglugerð í gegnum þingið sem hagnaðist Shaul Elovitch, stærsta eiganda samskiptafélagsins Bezeq telecommunications group. Í staðinn áttu starfsmenn fjölmiðils félagsins að vera jákvæðari í garð Netanyahu.
Sjá einnig: Netanyahu verður ákærður fyrir spillingu
„Í réttmætum heimi væri Raviv Drucker í fangelsi í dag fyrir að birta glæpsamlega leka og að hindra réttarhöld,“ stóð í yfirlýsingunni.
Umrædd yfirlýsing Líkúd flokksins var birt á Twitter í gærkvöldi og deildi Netanyahu henni. Henni fylgdi mynd af Drucker með Yair Lapid, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, og Ofer Shelah, sem er einnig í stjórnarandstöðunni. Báðir voru þeir á árum áður blaðamenn.
Þar er því haldið fram að það að Drucker sé ekki í fangelsi sé til marks um það hvernig allt kerfið sé gegn Netanyahu, sem hefur verið forsætisráðherra í rúman áratug. Fjölmiðlar eru einnig sakaðir um að fara fram gegn forsætisráðherranum.
Yair Lapid var í Bláhvíta bandalaginu en sleit sig frá því þegar Gantz gekk til liðs við Netanyahu. Hann tjáði sig um yfirlýsingu Líkúd og gagnrýndi hana harðlega.
„Í hvers konar ríkisstjórn hótar forsætisráðherra að senda blaðamann í fangelsi? Skipuleggjum okkur, hlutverk Raviv Drucker er að ráðast á ríkisstjórnina og hlutverk ríkisstjórnarinnar er að verja Raviv Drucker við störf hans,“ sagði Lapid.