Klukkan hálf sex í gærkvöldi barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um þjófnað á rafmagnshlaupahjóli í Laugardal. Upptaka náðist af manni klippa á lás og stela hjólinu. Í dagbók lögreglu kemur fram að maðurinn sé þekktur hjá lögreglunni og málið sé í rannsókn.
Þá barst lögreglu tilkynning um mann á reiðhjóli brjóta rúðu í skartgripaverslun við Laugaveg rétt upp úr klukkan fjögur í nótt. Maðurinn er sagður hafa tekið varning úr glugga verslunarinnar og hjólað burt.
Á tólfta tímanum í gærkvöldi var þá tilkynnt um þjófnað og líkamsárás í Breiðholti. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Sá sem fyrir árásinni varð er sagður með minni háttar áverka. Hann fékk síma sinn aftur, en árásarmaðurinn hafði tekið hann.
Frá klukkan 17 til 5 eru alls 70 mál skráð í dagbók lögreglu. Alls eru sjö mál skráð frá 23 til 2 vegna hárrar tónlistar eða hávaða í samkvæmum.