Sport

NASCAR leggur blátt bann við Suðurríkjafánanum

Sindri Sverrisson skrifar
Suðurríkjafáninn ætti ekki lengur að sjást á NASCAR-keppnum.
Suðurríkjafáninn ætti ekki lengur að sjást á NASCAR-keppnum. VÍSIR/GETTY

Í gegnum tíðina hefur jafnan mátt sjá áhorfendur veifa hinum umdeilda Suðurríkjafána á keppnum í NASCAR-kappakstrinum í Bandaríkjunum en svo verður ekki lengur.

NASCAR hefur ákveðið að banna fánann og segir í yfirlýsingu að það sé gert vegna þess að öllum eigi að líða eins og að þeir séu velkomnir á keppnum. Fólk eigi að sameinast í ást sinni á kappakstri.

Suðurríkjafáninn var grunnfáni suðurríkjaherja í bandaríska borgarastríðinu sem háð var á árunum 1861-1865. Í hugum margra táknar hann þrælahald og kynþáttaníð. Bandaríski sjóherinn bannaði fánann nýverið.

Bubba Wallace, eini þeldökki ökuþórinn í NASCAR, kallaði eftir því eftir keppni á sunnudaginn að fáninn yrði bannaður. Hann klæddist þá bol með áletruninni „I Can‘t Breathe“, og vísaði þannig í lögregluofbeldið sem leiddi til dauða George Floyd.

„Það ætti engum að þurfa að líða óþægilega þegar mætt er á NASCAR kappakstur. Þar þurfum við fyrst að horfa til Suðurríkjafánanna. Komið þeim í burtu. Þetta er enginn staður fyrir þá,“ sagði Wallace sem orðið hefur að ósk sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×