Íslenski boltinn

3 dagar í Pepsi Max: Lennon bara með 2 af 22 mörkum sínum á gervigrasi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Lennon fagnar einu marka sinna fyrir FH í Pepsi Max deildinni.
Steven Lennon fagnar einu marka sinna fyrir FH í Pepsi Max deildinni. Vísir

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 3 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.

FH-ingurinn Steven Lennon hefur skorað 22 mörk í úrvalsdeildinni undanfarin tvö tímabil þar af 13 mörk í 19 leikjum í Pepsi Max deildinni í fyrrasumar.

Það er hins vegar mikill munur á markaskori Steven Lennon á náttúrulegu grasi og á gervigrasi þessi tvö síðustu sumur þar sem gervigrasvöllunum hefur fjölgað mikið í deildinni.

Enginn skoraði fleiri mörk í Pepsi Max deildinni í fyrra á náttúrulegu grasi en Lennon skoraði tólf af þrettán mörkum sínum á grasi. Lennon skoraði tveimur grasmörkum meira en þeir Gary Martin og Elfar Árni Aðalsteinsson.

Sumarið á undan skoraði Lennon 8 af 9 mörkum sínum á grasi og aðeins tveir leikmenn skoruðu fleiri grasmörk en hann eða þeir Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Ásgeir Sigurgeirsson.

Steven Lennon hefur alls skorað 20 grasmörk undanfarin tvö tímabil eða sex grasmörkum meira en næsti maður.

Lennon er á þessum tveimur sumrum með 20 mörk í 33 grasleikjum eða 0,61 mörk að meðaltali í leik. Hann hefur aftur á móti aðeins skorað 2 mörk í 8 gervigrasleikjum eða 0,25 mörk að meðaltali. Bæði gervigrasmörkin hans og öll þrjú gervigrasmörkin hans frá og með 2017 hafa komið á Valsvellinum að Hlíðarenda.

Flest mörk á náttúrulegu grasi í úrvalsdeild karla 2018-19:

  • Steven Lennon 20
  • Elfar Árni Aðalsteinsson 14
  • Pálmi Rafn Pálmason 12
  • Hilmar Árni Halldórsson 12
  • Thomas Mikkelsen 12
  • Hallgrímur Mar Steingrímsson 10
  • Brandur Hendriksson Olsen 10
  • Ásgeir Sigurgeirsson 10
  • Gary John Martin 10
Steven Lennon skorar fyrir FH á grasvellinum í Kaplakrika.Vísir/Daníel

Steven Lennon í Pepsi Max deildinni 2019:

  • Grasleikir/mörk: 14/12
  • Gervigrasleikir/mörk: 5/1

Steven Lennon í Pepsi deildinni 2018:

  • Grasleikir/mörk: 19/8
  • Gervigrasleikir/mörk: 3/1

Steven Lennon 2018-19:

  • Grasleikir/mörk: 33/20
  • Gervigrasleikir/mörk: 8/2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×