Fótbolti

Madríd býðst til að halda úrslitaleik Meistaradeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fór fram á Wanda Metropolatino, heimavelli Atlético Madrid, í fyrra.
Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fór fram á Wanda Metropolatino, heimavelli Atlético Madrid, í fyrra. getty/Oscar J. Barroso

Madríd hefur boðist til að halda úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta ef hann verður færður frá Istanbúl.

Úrslitaleikurinn átti að fara fram á Atatürk vellinum í Istanbúl 30. maí. Keppni í Meistaradeildinni var hins vegar hætt í mars vegna kórónuveirufaraldursins og óvíst er hvenær hún verður kláruð.

Í síðasta mánuði greindi New York Times frá því að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar yrði ekki í Istanbúl og UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, væri að skoða aðra kosti í stöðunni.

Borgarstjórinn í Madríd, José Luis Martínez-Almeida, segir að borgin sé tilbúin að halda úrslitaleikinn sem fer væntanlega fram fyrir luktum dyrum.

Í fyrra fór úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fram á Wanda Metropolitano, heimavelli Atlético Madrid. Liverpool bar þá sigurorð af Tottenham, 2-0.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar hefur einnig fjórum sinnum farið fram á Santiago Bernabéu, heimavelli Real Madrid, síðast 2010. Þá vann Inter Bayern München með tveimur mörkum gegn engu.

Frekari fregna af Meistaradeildinni og hvar úrslitaleikurinn verður haldinn er að vænta eftir fund framkvæmdastjórnar UEFA 17. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×