Fótbolti

Segir ekkert koma í veg fyrir VAR á Íslandi annað en ákvörðunartökuna

Sindri Sverrisson skrifar
Rikki G og Vilhjálmur Alvar Þórarinsson í VAR-herberginu þar sem leikur KR og Víkings R. var til skoðunar.
Rikki G og Vilhjálmur Alvar Þórarinsson í VAR-herberginu þar sem leikur KR og Víkings R. var til skoðunar. MYND/STÖÐ 2

Á meðan á leik KR og Víkings R. stóð í meistarakeppni KSÍ í gærkvöld prófuðu starfsmenn íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins OZ myndbandsdómarakerfi sitt. Það verður hugsanlega notað í íslenska boltanum á næstu árum.

Milliríkjadómarinn Vilhjálmur Alvar Þórarinsson er einn þeirra sem vinna að gerð VAR-kerfis OZ og hann segir í raun aðallega vanta skýra ákvörðun íslensku knattspyrnuforystunnar svo að VAR verði tekið í notkun í íslenska boltanum. Rikki G heimsótti Vilhjálm í „VAR-herbergið“ í Sportpakkanum á Stöð 2:

„Við sýndum fram á það í gær að við gátum verið með VAR-kerfi í gangi en engin samskipti við dómara eða áhrif á leikinn. Við vorum bara að vinna með myndbandsefnið. En það sem þarf að gera er að knattspyrnusambönd þurfa að sækja um að fá að innleiða VAR, og þá fer ferli í gang með FIFA og IFAB, og þá þarf að fara af stað þjálfun dómara því það er ekki bara hægt að ýta á play og byrja með VAR. En við sjáum að það er í raun ekkert sem stoppar annað en ákvörðunartakan,“ segir Vilhjálmur.

Ekki notað á leikjum í sumar

Aðspurður segir Vilhjálmur þó ekki inni í myndinni að VAR verði notað á einstaka leikjum hér á landi í sumar.

„Nei, mér finnst það mjög ólíklegt. Það verður alla vega ekki neinn leikur í sumar þar sem að VAR mun hjálpa dómaranum með því að leggja til leiðréttingu á ákvörðun, en vonandi getum við haldið áfram að prófa búnaðinn okkar og gera hann ennþá betri og tilbúnari fyrir Ísland og önnur lönd,“ segir Vilhjálmur.

Nú þegar VAR hefur verið tekið í notkun í fjölda knattspyrnudeilda um allan heim stefnir OZ að því að skapa sér pláss á markaðnum með sinni lausn.

„Við erum í samskiptum við ýmis sambönd og vonandi sjáum við okkar kerfi notað á sem flestum stöðum úti í heimi í framtíðinni,“ segir Vilhjálmur.

Klippa: Sportpakkinn - Prófuðu sig áfram með VAR á leik KR og Víkings

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×