Erlent

Lögðu fram opinbera beiðni um að ræða við Andrés vegna Epstein

Samúel Karl Ólason skrifar
Andrés Bretaprins sagðist í fyrstu ætla að aðstoða rannsakendur vestanhafs en hætti svo við og hefur neitað að tala við þá.
Andrés Bretaprins sagðist í fyrstu ætla að aðstoða rannsakendur vestanhafs en hætti svo við og hefur neitað að tala við þá. EPA/JULIEN WARNAND

Alríkissaksóknarar í Bandaríkjunum hafa lagt fram formlega beiðni til yfirvalda Bretlands um að fá að ræða við Andrés Bretaprins. Það vilja þeir gera vegna rannsóknar þeirra á kynferðisbrotum Jeffrey Epstein. Í frétt NBC News, sem hafa sagt frá beiðninni, segir að mjög sjaldgæft sé að slíkar beiðnir séu lagðar fram formlega.

Andrés prins var á meðal vina Epstein en prinsinn hefur verið sakaður um kynferðisbrot í tengslum við mál Epsteins, sem svipti sig lífi í varðhaldi í New York 10. ágúst síðastliðinn. Andrés hefur hafnað öllum ásökunum gegn sér en hefur dregið sig úr sviðsljósinu og frá störfum sínum innan bresku konungsfjölskyldunnar vegna málsins

Þó hann hafi sjálfur verið sakaður um brot segja embættismenn að Andrés sé eingöngu vitni og komi ekki að rannsókninni með öðrum hætti. Rannsakendur hafa reynt að ræða við hann í marga mánuði.

Í fyrstu sagðist hann ætla að hjálpa til við rannsóknina en snerist svo hugur og hefur þvertekið fyrir að ræða við rannsakendur. Hann hafði áður sagt að hann hefði ekki orðið vitni að neinu grunsamlegu í fari Epstein eða þegar hann heimsótti hann, sem hann gerði reglulega.

Epstein var sakaður um mansal og kynferðisbrot um árabil og gegn ungum konum og jafnvel stúlkum undir lögaldri. Brot hans eiga að hafa varðað hundruð stúlkna allt niður í tólf ára gamlar.


Tengdar fréttir

Fórnarlömb Jeffrey Epstein hneyksluð á Andrési prins

Lögmenn á snærum meintra fórnarlamba barnaníðingsins og viðskiptamannsins Jeffrey Epstein hvetja nú Andrés prins, hertogann af York, til þess að sýna samstarfsvilja í rannsókn bandarískra yfirvalda á meintum kynferðisbrotum Epstein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×