Íslenski boltinn

Úr búskap yfir í Íslandsmeistaraliðs Vals

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bryndís Lára ver hér frá Fanndísi Friðriksdóttur, leikmanni Vals, en þær verða samherjar í sumar.
Bryndís Lára ver hér frá Fanndísi Friðriksdóttur, leikmanni Vals, en þær verða samherjar í sumar. Vísir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals í fótbolta hafa sótt sér markvörð sem varð Íslandsmeistari fyrir þremur árum síðan.

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir er gengin til liðs við Val í Pepsi Max deild kvenna. Bryndís Lára hefur varið mark Þórs/KA undanfarin ár og varð til að mynda Íslandsmeistari með liðinu sumarið 2017.

Bryndís Lára lék aðeins þrettán deildarleiki á síðustu leiktíð vegna þrálátra meiðsla í baki. Þá hafði hún áður hætt í fótbolta og ætlaði að einbeita sér að spjótkasti. Í vetur færðist áhugasviðið frá fótbolta og spjótkasti yfir í búskap. Hefur hún því lítið æft og aðallega einbeitt sér að lömbum og folöldum.

Íslandsmeistararnir lánuðu hina ungu Auði Sveinbjörnsdóttur Scheving til ÍBV og því vantaði liðinu aukna samkeppni þó svo að liðið sé vel búið að markvörðum sem eru í yngri landsliðum Íslands. Nú hefur Bryndís ákveðið að taka slaginn með Val og vera Söndru Sigurðardóttur til halds og trausts.

Bryndís fékk eldskírn sína í efstu deild með Breiðablik árið 2011 en hefur síðan varið mark ÍBV og Þórs/KA. Hún mun ekki æfa á fullu með Val þar sem hún verður áfram búsett á Kúfhól í Austur-Landeyjum. 

„Ég bý á Kúfhól og verð hér í sumar. Fer í bæinn þegar ég get en fer hægt af stað vegna meiðslanna sem eru samt betri en í fyrra,“ sagði Bryndís í stuttu spjalli við Vísi.

Alls hefur Bryndís leikið 169 leiki í deild og bikar ásamt því að hafa leikið einu sinni fyrir íslenska landsliðið.

Pepsi Max deild kvenna fer af stað 12. júní með stórleik Vals og KR að Hlíðarenda. Að sjálfsögðu í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×