Séra Skírnir Garðarsson íhugar að stefna þjóðkirkjunni eða Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup, vegna þjónustuloka hans sem prests. Skírni var vikið úr starfi í apríl fyrir brot á trúnaðarskyldu presta og starfs- og siðareglum þeirra. Það var vegna ummæla hans um konu sem sökuð er um skjalafals í bakvarðasveit á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík.

Í samtali við Fréttablaðið segir Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður Skírnis, að verið sé að skoða hvort stefna eigi þjóðkirkjunni, biskupi eða báðum vegna málsins.
Í Fréttablaðinu segir einnig að Skírnir hafi krafist þess fyrr í mánuðinum að fá að snúa aftur til starfa. Í kröfubréfi Skírnis segist hann iðrast þess að hafa „brotið trúnað gagnvart kirkjunni og skjólstæðingi mínum“.
Í lok apríl gaf Biskupsstofa út yfirlýsingu um mál Skírnis þar sem því var alfarið neitað að brotið hafi verið á honum með uppsögninni.
Þetta er í annað sinn sem Skírnir er vikið frá störfum. Í lok árs 2015 var honum vikið frá störfum í Lágafellssókn og það vegna máls sem rekja má til samskipta hans og „bakvarðarins“. Konan hafði þegið fjárhagsaðstoð úr líknarsjóði Lágafellskirkju árið 2013 þegar hann var prestur í sókninni. Skírnir grunaði að konan hefði falsað pappíra í umsókn sinni og ræddi við félagsmálastjóra Mosfellsbæjar um að sjá gögn sem sneru að henni.
Konan kærði hann fyrir brot á persónuverndarlögum, ásamt starfsmanni Mosfellsbæjar, eftir að hann lét kanna hvort hún segði rétt frá.