Viðskipti erlent

Gates hættir í stjórn Microsoft og helgar sig mannúðarmálum

Kjartan Kjartansson skrifar
Gates og eiginkona hans Melinda hafa lagt sitt af mörkum til mannúðarmála í gegnum sjóð sem kennd er við þau undanfarin ár og áratugi.
Gates og eiginkona hans Melinda hafa lagt sitt af mörkum til mannúðarmála í gegnum sjóð sem kennd er við þau undanfarin ár og áratugi. Vísir/EPA

Bill Gates, stofnandi tæknirisans Microsoft, tilkynnti í gær að hann ætlaði að segja sig úr stjórn fyrirtækisins. Í staðinn ætlar Gates að verja tíma sínum enn frekar í ýmis mannúðarmál, þar á meðal heilbrigðis-, þróunar-, mennta- og loftslagsmál. Hann verður áfram tæknilegur ráðgjafi fyrirtækisins.

Í yfirlýsingu sem Gates skrifaði á samfélagsmiðilinn LinkedIn í gær sagðist hann einnig ætla að segja sig úr stjórn Berkshire Hathaway, félags auðjöfursins Warrens Buffett. Þeir Gates eru nánir vinir.

Gates, sem stofnaði Microsoft fyrir rúmum fjörutíu árum, hefur smám saman dregið sig út úr rekstri fyrirtækisins. Hann lét af daglegum störfum árið 2008 og hætti sem stjórnarformaður árið 2014. New York Times segir að Gates sé enn einn stærsti einstaki hluthafinn í Microsoft með um 1,3% hlut sem er talinn um 16 milljarða dollara virði, jafnvirði um 2.200 milljarða íslenskra króna.

„Microsoft verður alltaf mikilvægur hluti af ævistarfi mínu og ég mun halda áfram að vera í samskiptum við Satya [Nadella, forstjóra Microsoft] og tæknilega stjórnendur til þess að aðstoða við að móta hugsjónina og ná metnaðarfullum markmiðum fyrirtækisins. Ég er bjartsýnni en nokkru sinni fyrr um árangurinn sem fyrirtækið er að ná,“ segir Gates.

Á lista Forbes-tímaritsins yfir ríkasta fólk heims er Gates í öðru sæti á eftir Jeff Bezos, stofnanda Amazon. Auðæfi Gates eru metin á um 103,6 milljarða dollara, jafnvirði meira en 14.000 milljarða íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×