Tveir jarðskjálftar mældust um þrjá kílómetra austnorðaustur af Grindavík í kvöld. Sá fyrri mældist klukkan 18:40 og var 3,4 af stærð og sá seinni mældist klukkan 18:42 og var að stærð 3,3. Einnig hefur eitthvað verið um minni eftirskjálfta á Reykjanesi í dag.
Klukkan 10:26 í morgun varð skjálfti að stærð 5,2 um fimm kílómetra norðaustur af Grindavík. Skjálftinn í morgun er sá stærsti sem mælst hefur á Reykjanesskaga síðan í október 2013.
Skjálftans varð víða vart á suðvesturhorninu og fannst meðal annars greinilega á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum er skjálftinn sem varð á jarðskjálftasprungu líklegast afleiðing spennubreytinga sem hafa átt sér stað á svæðinu frá því í lok janúar.
Ekkert landris mælist lengur á Reykjanesi samkvæmt Veðurstofunni og er líklegasta skýringin að kvikuinnflæði sé þar lokið í bili. Þrátt fyrir það er óvissustig Almannavarna enn í gildi.