Innlent

Allt að 15 stiga hiti á Austur­landi í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Seinni partinn má búast við nokkrum hlýindum víða á landinu líkt og sjá má á spákorti Veðurstofunnar.
Seinni partinn má búast við nokkrum hlýindum víða á landinu líkt og sjá má á spákorti Veðurstofunnar. Veðurstofan

Lægð er stödd við Hvarf syðst á Grænlandi og strekkingssunnanáttin hennar beinir hlýju og röku lofti að landinu.

Svo segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar, en þar segir að landsmenn megi búast við súld eða dálítilli rigningu sunnan og vestanlands í dag, en að þurrt verði norðan- og austantil.

„Þar sem lítill raki er í lofinu á þeim slóðum má búast við hlýju veðri, hiti er nú þegar kominn í 11 stig á Siglufirði og síðar í dag verður hitinn víðar yfir 10 stig, jafnvel 15 stig á Austurlandi. Heldur svalara þó í úrkomunni, víða 4 til 9 stig.

Bætir heldur í sunnanáttina á morgun og áfram hlýtt veður, en snjónum líkar ekki sérstaklega við þessi hlýnindi. Hann mun bráðna nokkuð hratt og því útlit fyrir talverðar vorleysingar norðan- og austanlands. Kalt loft er þó ekki langt undan og útlit fyrir að það gangi inn á norðvestanvert landið síðdegis á morgun með slyddu og snjókomu annað kvöld, en áfram hlýtt annarstaðar.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Sunnanátt, víða 10-15 m/s. Bjartviðri norðaustantil á landinu, en súld eða dálítil rigning sunnan- og vestanlands. Lægir um vestanvert landið um kvöldið. Hiti 4 til 13 stig, hlýjast norðanlands.

Á sunnudag: Suðlæg átt, 8-15 m/s og víða rigning eða súld, en þurrt norðaustanlands. Hiti 3 til 10 stig, kaldast norðvestantil.

Á mánudag: Fremur hæg suðlæg átt en suðaustan 8-13 suðvestantil. Rigning eða súld með köflum en bjart veður norðanlands. Hiti víða 5 til 10 stig.

Á þriðjudag: Fremur hæg suðaustanátt og dálítil væta en þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag og fimmtudag (sumardagurinn fyrsti): Hæg austlæg eða breytileg átt og bjart með köflum. Milt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×