Erlent

Yfirmaður mannaðra geimferða NASA hættir vegna „mistaka“

Samúel Karl Ólason skrifar
Í bréfi sem sent var á starfsmenn NASA í dag sagði Douglas Loverro að hann væri að hætta vegna „mistaka“ sem hann hafi gert.
Í bréfi sem sent var á starfsmenn NASA í dag sagði Douglas Loverro að hann væri að hætta vegna „mistaka“ sem hann hafi gert. Vísir/Getty

Yfirmaður mannaðra geimferða hjá Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, sagði af sér í dag. Rétt rúm vika er þar til NASA ætlar að skjóta mönnum út í geim frá Bandaríkjunum í fyrsta sinn frá árinu 2011. Í bréfi sem sent var á starfsmenn NASA í dag sagði Douglas Loverro að hann væri að hætta vegna „mistaka“ sem hann hafi gert.

Loverro hafði sinnt stöðu sinni í einungis sjö mánuði eftir að forveri hans var lækkaður í tign og yfirgaf stofnunina. Áður hafði Loverro starfað hjá National Reconnaissance Office, sem byggir hernaðargervihnetti, í áratugi.

Samkvæmt frétt Politico skrifaði Loverro í áðurnefnt bréf að hann viti til þess að leiðtogar þurfi af og til að taka áhættu. Þær ákvarðandir geti þó komið niður á þeim.

„Ég tók slíka ákvörðun fyrr á árinu því ég taldi það nauðsynlegt til að ná markmiði okkar,“ skrifaði hann. „Núna, eftir smá tíma, er ljóst að ég gerði mistök og þarf að bera ábyrgð á gjörðum mínum.“

Í samtali við blaðamenn Politico, neitaði Loverro að útskýra nánar hvaða „mistök“ hann væri að tala um. Hann sagði afsögn sína þó ekki tengjast einhvers konar deilum við Jim Bridenstine, yfirmann NASA, eða geimskotinu í næstu viku.

Meðal annars var Loverro yfir þróunarverkefnum SpaceX og Boeing varðandi mannaðar geimferðir og var hann einnig yfir Artemis-verkefninu, sem snýr að því að lenda mönnum á tunglinu á árinu 2024.

Loverro átti að stýra nefndarfundi á fimmtudaginn þar sem ákveða ætti hvort að Crew Dragon geimfar SpaceX væri tilbúið í mannaðar geimferðir. Ákvörðunin hefði þó að endingu verið hans að taka.

ARS Technica segir yfirlýsinguna hafa komið starfsmönnum NASA verulega á óvart. Loverro hafi verið vinsæll meðal þeirra þrátt fyrir að hafa verið í starfinu í skamman tíma.

Forsvarsmenn NASA segjast ekki geta tjáð sig um málið að öðru leyti en að Loverro hafi ákveðið að segja af sér. Í yfirlýsingu frá stofnuninni segir að störf Loverro hafi hjálpað verulega við Artemis-áætlunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×