Innlent

Sextán prósent svarenda í könnun á Alþingi hafði upplifað kynferðislega áreitni í starfi

Andri Eysteinsson skrifar
Könnunin var lögð fyrir starfsfólk skrifstofu, þingflokka og þingmenn á Alþingi.
Könnunin var lögð fyrir starfsfólk skrifstofu, þingflokka og þingmenn á Alþingi. Vísir/Vilhelm

Í nýrri skýrslu um starfsumhverfi og vinnustaðamenningu á Alþingi kemur fram að sextán prósenta svarenda eða 24 einstaklingar sögðust hafa reynslu af kynferðislegri áreitni í starfi. Ellefu sögðust hafa upplifað áreitni á síðustu fimm árum. Einungis þrír af 24% höfðu tilkynnt athæfið.

Könnun var lögð fyrir starfsfólk skrifstofu Alþingis, starfsmenn þingflokka og þingmenn og var svarhlutfall 74,3%.

Spurningalistinn skiptist í fimm hluta sem sneru að samskiptum, einelti, kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni auk spurninga úr rannsókn Alþjóðaþingmannasambandsins og Evrópuráðsþingsins.

Lesa má skýrslu félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um starfsumhverfi og vinnustaðamenningu Alþingis hér.

Kynbundin áreitni mældist mest á meðal þingmanna en 14 þingmenn sögðust hafa reynslu af slíkri áreitni. Gerendur voru í 74% tilfella karlmenn.

Þá lýstu margir því að samskipti hafi verið erfið á vinnustaðnum en um 70 manns sögðust hafa upplifað að upplýsingum væri haldið frá þeim. 107 einstaklingar töldu eigið kynferði ekki hafa áhrif á framgang sinn í starfi en 29 einstaklingar sögðu kyn sitt hafa áhrif til hins verra.

Hlutfallslega fleiri konur en karlar töldu kynferði sitt hafa neikvæð áhrif á framgangi í starfi. 59% kvenkynsþingmanna voru á þeirri skoðun (10/17) en 17% karlkyns þingmanna (4/24).

20% sögðust þá hafa orðið fyrir einelti í starfi sínu á Alþingi og var einelti algengast á meðal þingmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×