Erlent

Margrét Þór­hildur Dana­drottning er átt­ræð í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Margrét Þórhildur vaknaði við morgunsöng starfsmanna Fredensborgarhallar í morgun.
Margrét Þórhildur vaknaði við morgunsöng starfsmanna Fredensborgarhallar í morgun. Danska konungshöllin/EPA

Margrét Þórhildur Danadrottning er heldur upp á áttræðisafmæli sitt í dag. Ekkert verður þó af áður fyrirhuguðum hátíðarhöldum vegna stórafmælisins sökum faraldurs kórónuveirunnar.

Danska ríkisútvarpið segir frá því að starfsmenn dönsku konungshallarinnar hafi vakið drottninguna með morgunsöng þar sem lagið „I Danmark er jeg født“ var meðal annars sungið. 

Myndir hafa verið birtar af drottningu þar sem hún er í náttkjól, með slegið hár og brosir þar sem hún fylgist með syngjandi starfsfólkinu í Kuppelsalen í Fredensborg höllinni á Sjálandi.

Þrátt fyrir samkomubann þá munu Danir engu að síður tryggja að haldið verði upp á stórafmæli drottningar og verður danska ríkisútvarpið með sérstaka útsendingu í dag þar sem meðal annars verður frá fjöldasöngum víðs vegar í landinu.

Einnig er búið að birta kveðju frá barnabörnum drottningar þar sem þau óska ömmu sinni til hamingju með daginn.

Margrét Þórhildur kom í heiminn í Amalienborgarhöll í Kaupmannahöfn þann 16. apríl árið 1940. Hún varð drottning í byrjun árs 1972 í kjölfar fráfalls föður síns, Friðriks níunda. 

Hún giftist hinum franska Hinrik árið 1967 og eignuðust þau tvö börn, þá Friðrik árið 1968 og Jóakim árið 1969. Hinrik lést árið 2018.

Friðrik IX Danakonungur og Ingiríður drottning dást að nýfæddri dóttur sinni árið 1940.Danska konungshöllin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×