Innlent

Afborganir námslána lækka

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lánasjóður íslenskra námsmanna, LÍN, er til húsa í Höfðaborg í Borgartúni.
Lánasjóður íslenskra námsmanna, LÍN, er til húsa í Höfðaborg í Borgartúni.

Stjórnvöld hafa í hyggju að lækka bæði vexti og endurgreiðsluhlutfall af eldri námslánum. Fyrir vikið eigi tekjutengd afborgun námslána að lækka. „Ábyrgðarmenn á um 30.000 lánum verða felldir brott til að tryggja jafnræði og uppgreiðsluafsláttur hækkaður upp í allt að 15% þegar tillögur um að bæta stuðning við greiðendur námslána verða innleiddar,“ segir aukinheldur í tilkynningu stjórnvalda.

Ríkisstjórnin hyggst ráðast í eftirfarandi aðgerðir, að tilögu starfshóps sem skipaður var í tengslum við kjaraviðræður á opinberum markaði:

  1. Vextir námslána lækka úr 1% niður í 0,4%.
  2. Endurgreiðsluhlutfall lána lækkar til samræmis sem lækkar afborganir.
  3. Afsláttur vegna uppgreiðslu námslána verður allt að 15% framvegis.
  4. Ábyrgðarmenn á lánum í skilum sem tekin voru fyrir 2009 falla brott og jafnræði þannig tryggt.

Forsætisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og fjármálaráðherra kynna breytingarnar í meðfylgjandi myndbandi.

Starfshópurinn er sagður hafa metið núvirtan kostnað aðgerðanna um 14 milljarða króna. „Hann fellur til yfir lengri tíma og unnt er að láta greiðendur námslána njóta góðs af sterkri fjárhagsstöðu Lánasjóðsins sem fjármagnar aðgerðirnar,“ segir til útskýringar á vef stjórnarráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×