Viðskipti innlent

Lækka gjaldið í Vaðlaheiðargöng fyrir þau sem bruna í gegn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vesturmunni Vaðlaheiðarganga
Vesturmunni Vaðlaheiðarganga vísir/tpt

Veggjald fyrir ökumenn fólksbíla sem keyra beint í gegnum Vaðlaheiðargöng án þess að skrá sig lækkar um næstu mánaðamót. Greiddar eru 2500 krónur fyrir slíkan akstur í dag en gjaldið lækkar um þúsund krónur 1. júní og verður því 1500 krónur. Engar breytingar verða þó á öðrum greiðsluháttum, eða eins og segir í tilkynningu Vaðlaheiðarganga:

Breytingar við greiðslu í heimabanka hafa engar breytingar í för með sér fyrir þá sem hafa nú þegar skráð ökutæki á veggjald.is eða tunnel.is, hvorki fyrir þá sem greiða fyrir stakar ferðir eða þá sem hafa keypt 10, 40 eða 100 ferðir fyrirfram og njóta þannig afsláttarkjara.

Þetta er sagt einfalda innheimtukerfi Vaðlaheiðarganga. Þau sem ekki hafa skráð bíl sinn í gegnum fyrrnefndar vefsíður fá kröfu í heimabanka og hafa tíu daga frest til að greiða gjaldið. Fólki hefur þótt þessi frestur of naumur að sögn aðstandendanna Vaðlaheiðarganga, auk þess sem einhver hafa ekki treyst sér til að skrá og borga í gegnum veggjald.is eða með smáforriti í síma.

„Markmið með innheimtukerfi Vaðlaheiðarganga er að nýta tækni til eins hagkvæms rekstrar og hægt er auk þess að tryggja öryggi þeirra sem nota þau með frjálsu flæði,“ segir í skýringu Vaðlaheiðarganga og bætt við að þegar gjaldtakan í göngin hófst í ársbyrjun árið 2019 var ljóst að um nýjung væri að ræða.

Innheimtan væri sjálfvirk og engin mönnuð skýli við göngin. „Það er eðlilegt að það taki viðskiptavini tíma að læra á kerfið sem virkar til framtíðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×