Erlent

Morgunþáttur til rannsóknar vegna ummæla um 5G og kórónuveiruna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ruth Langsford og Eamonn Holmes í myndveri This Morning á ITV.
Ruth Langsford og Eamonn Holmes í myndveri This Morning á ITV. skjáskot

Breska fjarskipta- og fjölmiðlastofnunin, Ofcom, leggur nú mat á hvort að þáttastjórnandi þar í landi hafi farið á svig við siðareglur með vangaveltum sínum um möguleg tengsl kórónuveirunnar og 5G-símamastra.

Í morgunþættinum This Morning á ITV í gærmorgun sagðist Eamonn Holmes ósáttur með hvernig fjölmiðlar hafi tekið fálega í að kanna málið. Þeir hafi „slegið þetta strax út af borðinu“ og stimplað sem falsfrétt, þó svo að fjölmiðlafólk sé ekki visst í sinni sök. Það viti ekki hvort eitthvað orsakasamband sé á milli fjarskiptabúnaðarins og faraldursins, sem dregið hefur rúmlega 11 þúsund Breta til dauða.

Fyrrnefnt Ofcom segist hafa fengið á fimmta hundrað ábendinga og kvartana frá áhorfendum eftir ummæli Holmes. Málið sé þar til rannsóknar og í forgangi.

Þarlendir ráðherrar og framlínufólk í heilbrigðiskerfinu hafa reynt að kveða niður sambærilegar vangaveltur á undanförnum dögum. Þau lýstu þeim til að mynda sem „hættulegum fölskum fréttum“ eftir að veist var að starfsfólki fjarskiptafyrirtækja og brennuvargar báru eld að 5G-möstrum í upphafi mánaðarins.

Það eru þó ekki aðeins brennuvargar sem óttast þessi meintu tengsl en söngkonan Anne-Marie og Amanda Holden, dómari í Britain's Got Talent, eru meðal þeirra sem hafa tjáð sig um 5G og kórónuveiruna.

Ummæli þáttastjórnandans Eamonn Holmes má sjá hér að ofan, í myndbandi sem Independent tók saman. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×