Breikkun Vesturlandsvegar um Mosfellsbæ í fjórar akreinar, milli Skarhólabrautar og Langatanga, skal að fullu lokið eigi síðar en 1. desember næstkomandi, samkvæmt útboðsauglýsingu Vegagerðarinnar, sem birt var í gær.
Þetta er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar. Lengd vegarkaflans er 1,1 kílómetri en til að koma fyrir fjórum akreinum þarf bergskeringar inn í Lágafell auk annarra skeringa. Ennfremur á að skilja að akstursstefnur með vegriði.
Tilboðsfrestur rennur út 5. maí. Ætla má að það verði vart fyrr en í júní, sem búið verður að semja við verktaka, sem hefði þá innan við sex mánuði til að ljúka verkinu.

Efni sem fæst úr bergskeringum verður nýtt í hljóðmanir við veginn. Einnig á að byggja hljóðvarnarveggi á steyptum undirstöðum og klæða með semtentsbundnum trefjaplötum. Þá felst í verkinu gerð biðstöðvar fyrir Strætó með tilheyrandi stígatengingum.
Innifalið er einnig gerð gangstíga, gróðursetning 280 trjáa og runna, uppsetning 60 ljósastaura og öll nauðsynleg lagnavinna, og frágangur yfirborðs raskaðra svæða.