Innlent

Landspítali búinn að ráða 135 úr bakvarðasveit

Eiður Þór Árnason skrifar
Landspítali helgað deild A7 í Fossvogi fyrir sjúklinga í COVID-19-einangrun.
Landspítali helgað deild A7 í Fossvogi fyrir sjúklinga í COVID-19-einangrun. Vísir/vilhelm

Landspítalinn hefur gert ráðningarsamninga við 135 einstaklinga úr bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Þar af eru 70 hjúkrunarfræðingar og 56 sjúkraliðar auk lækna, lyfjatækna og fólki úr öðrum fögum. 

Þetta sagði Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, á upplýsingafundinum í dag.

„Það er gott að eiga fólk upp á að hlaupa því að eins og við segjum þá er mesta álagið á heilbrigðiskerfið ekki komið,“ sagði Alma Möller landlæknir á fundinum. 

Reiknað er með því að hápunktur álags í heilbrigðiskerfinu af völdum kórónuveirunnar muni birtast eftir viku til tíu daga.

Fram kom í máli Ölmu að rúmlega 1.100 manns hefðu nú skráð sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar úr 12 starfsstéttum ásamt læknanemum og hjúkrunarnemum.

Alma þakkaði öllum bakvörðum fyrir sitt framlag á fundinum í dag og sagði sveitina hafa sannað gildi sitt.

Á dögunum var greint frá alvarlegu ástandi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolgungarvík þar sem fjöldi heimilismanna og starfsmanna er nú í einangrun eða sóttkví. 

Þar horfir til betri vegar eftir að liðsauki bakvarðasveitar barst frá Reykjavík með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Starfseminni á Bergi er nú nær alfarið sinnt af fólki úr bakvarðasveit. 

Einnig hefur fjöldi starfsmanna Landspítalans þurft að fara í sóttkví eða einangrun vegna veirunnar. 103 starfsmenn spítalans eru núna í sóttkví og 19 í einangrun en talsvert hefur fækkað í báðum hópum undanfarna daga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×