Viðskipti innlent

Festi hefur haft samband við Vinnumálastofnun vegna endurgreiðslu hlutabótaleiðarinnar

Andri Eysteinsson skrifar
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festis, segir fyrirtækið ætla að endurgreiða hlutabótaleiðina.
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festis, segir fyrirtækið ætla að endurgreiða hlutabótaleiðina.

Eignarhaldsfélagið Festi hefur haft samband við Vinnumálastofnun með það að markmiði að endurgreiða þá upphæð sem fyrirtækið sparaði sér með aðgerðunum. Þetta segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festis í samtali við Vísi í kvöld.

„Við höfðum samband við Vinnumálastofnun á föstudaginn til að endurgreiða hlutabótaleiðina. Það er ekki enn þá komið í ferli hvernig því verður háttað,“ sagði Eggert.

Festi, sem rekur verslanir Krónunnar og Elko auk bensínstöðva N1 og vöruhótelsins Bakkans, hafði verið gagnrýnt fyrir að hafa nýtt sér hlutabótaleiðina.

Eggert segist eiga von á því að í vikunni skýrist hvernig endurgreiðslu verði háttað. „Ferlið er ekki til og það er verið að hanna það,“ segir Eggert og segir það eiga við um öll fyrirtæki sem hafa lofað endurgreiðslu.

„Starfsmennirnir fengu greiðslurnar en ekki fyrirtækin. Við eigum von á því að fá svar í vikunni hvernig við eigum að fara að þessu,“ sagði Eggert í samtali við Vísi.

Fyrr í dag tilkynnti Össur hf. að ákvörðun um endurgreiðslu hafi verið tekin, áður höfðu Hagar og Skeljungur auk Kaupfélags Skagfirðinga sagst ætla að endurgreiða Vinnumálastofnun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×