Erlent

Banna bandarískum þingmönnum að koma til Filippseyja

Kjartan Kjartansson skrifar
Richard Durbin er annar bandarísku þingmannanna sem hafði frumkvæði að refsiaðgerðum vegna filippseysks stjórnarandstæðings sem var handtekinn. Fyrir vikið er Durbin ekki lengur velkominn til Filippseyja.
Richard Durbin er annar bandarísku þingmannanna sem hafði frumkvæði að refsiaðgerðum vegna filippseysks stjórnarandstæðings sem var handtekinn. Fyrir vikið er Durbin ekki lengur velkominn til Filippseyja. Vísir/EPA

Stjórnvöld á Filippseyjum hafa bannað tveimur bandarískum öldungadeildarþingmönnum að koma til landsins og íhuga að takmarka ferðir Bandaríkjamanna þangað ef Bandaríkjastjórn beitir það refsiaðgerðum. Þingmennirnir tveir leggja refsiaðgerðirnar til vegna þess að filippseysk stjórnvöld handtóku einn helsta gagnrýnanda ríkisstjórnarinnar.

Í fjárlögum sem Bandaríkjaþing samþykkti fyrir næsta ár er ákvæði um refsiaðgerðir gegn þeim sem komu nálægt handtöku Leilu de Lime, öldungadeildarþingsmanns á Filippseyjum. Hún var handtekin og sökuð um fíkniefnalagabrot árið 2017 eftir að hún stýrði rannsókn á fjöldamorðum ríkisstjórnar Rodrigo Duterte, forseta.

Richard Durbin og Patrick Leahy, öldungadeildarþingmenn á Bandaríkjaþingi, áttu frumkvæði að ákvæðinu og þeim er nú bannað að koma til Filippseyja. Þá segir Reuters-fréttastofan að Duterte íhugi að taka upp kröfu um vegabréfsáritun fyrir Bandaríkjamenn sem hyggja á ferðir þangað, framfylgi Bandaríkjastjórn refsiaðgerðunum.

Duterte og ríkisstjórn hans hafa brugðist illa við hvers kyns gagnrýni á mannréttindabrot og morð utan dóms og laga í fíkniefnastríði þeirra. Þannig sakaði Teodoro Locsin yngri, utanríkisráðherra Filippseyja, Íslendinga um að vera handbendi fíkniefnasmyglara eftir að tillaga Íslands um rannsókn á fíkniefnastríðinu var samþykkt í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.


Tengdar fréttir

Borgarstjóri sem Duterte benti á myrtur

David Navarro var á lista sem Duterte forseti birti fyrr á þessu ári yfir einstaklinga sem hann sakaði um að vera „dópstjórnmálamenn“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×