Innlent

Króaður af á stolnum bíl

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla sinnti nokkrum verkefnum í gærkvöldi- og í nótt.
Lögregla sinnti nokkrum verkefnum í gærkvöldi- og í nótt. Vísir/vilhelm

Lögregla handtók ökumann á stolnum bíl í Garðabæ eftir stutta eftirför á þriðja tímanum í nótt. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og var að lokum króaður af. Þá er maðurinn grunaður um ölvunarakstur. Hann var vistaður í fangageymslu, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Tilkynnt var um líkamsárás í miðbænum á þriðja tímanum í nótt. Þar höfðu nokkrir ráðist á einn, sem hlaut minniháttar áverka. Ekki er vitað hverjir gerendur eru.

Skömmu eftir klukkan fimm var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ölvaðs hótelgests sem var að áreita starfsfólk. Lögregla ræddi við manninn sem lofaði „bót og betrun“, að því er segir í dagbók lögreglu.

Þá stöðvaði lögregla ökumann á ótryggðum bíl í Fossvogi. Maðurinn er grunaður um fíkniefnaakstur og vörslu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu þar sem hann hafði ekki landvistarleyfi.

Þá komu lögreglumenn að umferðarslysi í Breiðholti í gærkvöldi. Einn var handtekinn á vettvangi grunaður um ölvunar -og fíkniefnaakstur. Hann var látinn laus að lokinni sýnatöku.

Tveggja bíla árekstur varð síðdegis í gær á Vesturlandsvegi. Farþegi í annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild til skoðunar. Báðar bifreiðar voru óökufærar eftir áreksturinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×