Erlent

Togari Úthafsskipa grunaður um veiðar í leyfisleysi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dakar er höfuðborg Senegal.
Dakar er höfuðborg Senegal. Vísir/getty

Verksmiðjutogarinn Navigator var aðfaranótt mánudags færður til hafnar í Dakar, höfuðborg Senegals, vegna gruns um að hann hefði verið á veiðum undan ströndum landsins án leyfis. RÚV greinir frá. Útgerðarfélagið Úthagsskip gerir togarann út og skipstjóri hans er íslenskur.

Senegalski sjóherinn staðfestir við RÚV að hafa fært Navigator til hafnar í Dakar, þar sem togarinn er enn við höfn.

Þá segir í frétt RÚV að hald hafi verið lagt á vegabréf skipstjórans en hann hafi þó ekki verið handtekinn. Flestir í sjötíu manna áhöfn togarans eru frá Máritaníu.

Haraldur Reynir Jónsson eigandi Úthafsskipa segir í samtali við Mbl að togarinn hafi ekki veitt án leyfis í landhelgi Senegals. Togarinn hafi verið að veiða í landhelgi Máritaníu þegar senegalski sjóherinn kom að honum og taldi hann vera í senegalskri landhelgi. Hafi skipið verið í landhelgi Senegal gæti útgerðarfélagið fengið sekt, að sögn Haraldar.

Togarinn Heineste sem er í eigu Esju Holding, félags sem íslenska sjávarútvegsfyrirtækið Samherji á stóran hlut í, var kyrrsettur í Namibíu í nóvember. Íslenskur skipstjóri skipsins var handtekinn en sleppt úr haldi skömmu síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×