Alls voru 63 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku. Tveir voru á meiri en 140 kílómetra hraða á klukkustand þar sem hámarkshraðinn er 90 km/klst.
Þá var einn mældur á 119 kílómetra hraða á klukkustund skammt frá Vík á laugardaginn. Leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst.
Að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu var fljúgandi hálka á veginum og varla stætt. Gekkst ökumaðurinn við brotinu og greiddi sekt sína á vettvangi. Hann sagðist aldrei hafa keyrt í hálku áður.
Þrjú mál komu síðan inn á borð lögreglunnar vegna utanvegaaksturs. Tveimur þeirra hefur verið lokið með sektargerð.
Annars vegar var um að ræða ferðamann sem ók utan vega við Breiðbalakvísl á föstudaginn. Hann var stöðvaður þar af vegfaranda. Hins vegar var það svo erlendur ferðamaður á Breiðarmerkursandi við Þröng síðastliðinn miðvikudag.
Þriðja málið er til rannsóknar en þar stóðu landverðir Vatnajökulþjóðgarðs erlendan ferðamann að akstri utan vegar við Jökulsárlón.
Sagðist aldrei hafa keyrt í hálku áður
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
